154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Það er áhugavert að hlusta hér á hvern þingmanninn úr flokki Pírata koma hér og finna þessu mikilvæga frumvarpi flest til foráttu. Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega 6. gr. a í frumvarpinu og segir að hún fjalli sérstaklega um forvirkar rannsóknarheimildir. Ráðherra er svo langt því frá sammála hv. þingmanni hvað það varðar en þar segir:

„Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi.“

Hv. þingmaður gerir það síðastnefnda að sérstöku umræðuefni. Það er alveg ljóst að lögreglan þarf að búa yfir heimildum til þess að fylgjast með alvarlegri þróun á netinu sem ég held að við flest séum sammála um. Lögreglan vill fylgjast með þessu rými en ekki einstökum síðum og það er alveg ljóst að ef lögregla ætlar að fylgjast með einstaklingum á netinu þá þarf grunur að liggja fyrir um refsiverða háttsemi og þá þarf dómsúrskurð til og það er alveg skýrt. Þetta frumvarp snertir þar af leiðandi ekkert á því. Þetta er sambærilegt því ef lögreglan hefur áhyggjur af umferðarþunga á Kringlumýrarbraut (Forseti hringir.) og er þar á gatnamótum að fylgjast með umferð en ekki einstökum bílum.